Inngangur prófs

Nemendur sjá inngang prófs þegar þeir hafa smellt á tengilinn á prófið, áður en próftakan sjálf hefst. Mismunandi er hvaða upplýsingar eiga heima í prófinngangi en hér fyrir neðan eru nokkur dæmi:

  • Upplýsingar um vægi prófs.
  • Hve langan tíma nemandi fær í próftökuna, þ.e. tíminn frá því að spurningasíðan er opnuð þar til nemandi þarf að senda prófúrlausn sína inn.
  • Upplýsingar um hvenær próf er aðgengilegt til próftöku.
    Dæmi: Tveggja tíma próf sem nemandi má að taka á tímabilinu frá kl. 6 þann 2. febrúar til kl. 22:00 þann 8. febrúar. Nemandinn þarf að vera meðvitaður um að hann má í síðasta lagi byrja kl. 20:00 þann 8. febrúar til að fá fullar tvær klukkustundir í próftökuna.
  • Upplýsingar um prófspurningar s.s. fjöldi spurninga í prófinu, gerð spurninga t.d. fjölvalsspurningar eða ritgerðarspurningar, valspurningar og stigafjöldi fyrir spurningar. Hvort spurningar gilda mismikið t.d.
  • Fjöldi síðna í prófi og fjöldi spurninga á síðu.
  • Ráðleggingar kennara s.s. að svara fyrst öllum spurningum sem létt er að svara og gefa sér tíma í spurningar sem hafa mest vægi.
  • Tæknilegar upplýsingar:
    • Hvað á nemandi að gera ef vafrinn/prófið lokast skyndilega eða netsambandið rofnar?
      Dæmi: Ef próf / vafri lokast eða nettenging rofnar skamma stund skal opna vafrann aftur, skrá sig inn í Moodle, finna prófið og smella á „Halda áfram með síðustu tilraun“. Þau svör sem nemandi vistaði áður en próf lokaðist eru í prófinu þegar það er opnað aftur. Athugið að próftíminn heldur áfram að telja á meðan próf er lokað. Gerið því ekki óþarfa hlé á prófinu.
    • Moodle vistar svör nemanda sjálfkrafa af og til en svör vistast einnig þegar farið er á aðra síðu í prófinu. Farið er á milli síðna með því að smella á „Áfram“ eða með því að smella á númer spurningar.
    • Smellið ekki á „Senda og hætta“ fyrr en ljúka á prófinu. Eftir það er ekki hægt að breyta svörum.
    • Prófklukka sést ofarlega vinstra megin á skjánum. Hún fer í gang og byrjar að telja niður tímann um leið og próf er opnað (þetta á einungis við þegar próf hefur tímamörk).
    • Hvað á nemandi að gera ef upp koma tæknilegir örðugleikar sem valda því að hann getur ekki tekið prófið?
      Dæmi: Komi upp tæknilegir örðugleikar í prófi sem valda því nemandi getur ekki tekið prófið; sendið þá tölvupóst til kennara strax, þar sem vandamálinu er lýst nákvæmlega. Tekið verður á málinu síðar eða hringið þá í kennara í síma . . .
    • Notið Chrome eða Firefox vafra til að taka prófið.

Margir kennarar setja upp gervipróf fyrir nemendur sem hafa ekki tekið próf í Moodle áður. Gerviprófið er hægt að stilla þannig að nemandi getur tekið það eins oft og hann vill, en hafa að öðru leyti stillt á sama hátt og um alvöru próf væri að ræða. Þetta gefur kennara tækifæri til að sýna próftöku og útskýra fyrir nemendum t.d. hvar þeir sjá stig fyrir spurningar, yfirlit yfir spurningar sem búið er að svara og/eða er ósvarað, hvernig hægt er að merkja/flagga spurningu o.fl.

Í Moodle-leiðbeiningunum fyrir nemendur er kafli um próftöku í Moodle. Þar eru m.a. upplýsingar um nauðsynlegar stillingar vafra og fleira. Nemendur sem taka próf í Moodle þurfa að kynna sér þessar leiðbeiningar.