Í vídeóinu er sýnt hvernig próf er stofnað og nauðsynlegustu stillingar útskýrðar. Vídeóið er um 2 1/2 mín.
*Athugið! Viðmót Moodle hefur breyst frá því vídeóið var gert. Áfangi er nú settur í ritham undir tannhjóli í efra hægra horni áfangasíðunnar.
Hér fyrir neðan er lengra vídeó þar sem farið er nánar í einstaka stillingarmöguleika prófs.
Vídeóið er ítarlegra en það fyrra. Í því er farið í fleiri stillingarmöguleika, ásamt því sem veftré prófs er kynnt o.fl. Vídeóið er tæpar 10 mín.
Athugið! Aðgerðir undir yfirstjórn prófs sem sagt er frá í lok vídeósins eru nú undir tannhjóli hægra megin..
Próf stofnað
Leiðin: Í ritham > Nýtt viðfangsefni eða aðföng > Próf - Nýtt
- Setjið áfangann í ritham með því að fara í tannhjólið í efra hægra horni áfangasíðunnar.
- Smellið á +Nýtt viðfangsefni eða aðföng. Gluggi opnast.
- Tvísmellið á Próf eða smellið einu sinni og svo á Nýtt. Formið fyrir uppsetningu prófs opnast.
- Gefið prófinu heiti, skráið upplýsingar fyrir nemendur um prófið í ritilinn (inngangur) t.d. um vægi prófs, fjölda spurninga, gerð spurninga og stigagjöf o.fl. eftir atvikum. Veljið tímasetningar, hversu oft nemandi má taka prófið og annað sem við á. Sjá nánar lista yfir atriði sem geta átt heima í inngangi prófs.
Þegar stillingar hafa verið valdar er prófið vistað. Báðir vistunarmöguleikar gera það sama en í þeim síðari heldur kennari áfram að vera í prófinu og getur t.d. farið beint í að setja inn spurningar. Vista og birta merkir ekki að birta nemendum.
Neðar á þessari síðu eru einstök stillingaratriði í uppsetningu prófs útskýrð nánar. Í flestum tilfellum þarf einungis að eiga við örfáar stillingar, þó svo að Moodle bjóði upp á margar.Spurningarmerki: Þegar smellt er á spurningarmerki við einstakar stillingar í uppsetningarforminu koma upp stuttar útskýringar á tilgangi stillingarinnar. Athugið að útskýringarnar eru að stórum hluta á ensku og vísa oft ensk heiti annarra stillinga, því getur hentað að vera í enska viðmótinu þegar próf er sett upp. Moodle er sett í enskt viðmót efst á skjánum.
Sýna meira: Oft má sjá neðan við stillingar Sýna meira. Þar þarf að smella til að sjá allar stillingar viðkomandi atriðis.
Áríðandi!
Til að loka aðgangi nemenda að spurningum prófs er nauðsynlegt að stilla tíma prófsins strax. Ef tímasetningar eru ekki virkjaðar hafa nemendur aðgang að spurningum prófs um leið og þær eru settar í prófið. Ef próftími er ekki ljós þegar próf er stofnað er hægt að setja tímasetningar annað hvort langt fram í tímann eða aftur í tímann.
Hér fyrir neðan eru einstakar stillingar í uppsetningu prófs útskýrðar.
Í línuna efst er prófinu gefið nafn. Nafnið birtist sem tengill á prófið á forsíðu áfanga.
Í ritilinn fyrir neðan er inngangur prófs skrifaður. Nemendur sjá innganginn þegar þeir smella á prófið. Í inngangi eru eftir atvikum, upplýsingar um, vægi prófs, hvers konar spurningar það inniheldur og hve margar, hvort taka megi próf oftar en einu sinni o.fl. Sjá lista yfir atriði sem geta átt heima í inngangi prófs. Nemendur hafa aðgang að inngangi prófs óháð tímasetningum þess, svo framarlega sem tengillinn á prófið er hafður sýnilegur nemendum.
Fyrir neðan ritilinn er hægt að merkja við „Birta lýsingu á síðu áfangans“. Það sem skrifað er í ritilinn sést þá á forsíðu áfangans fyrir neðan tengilinn á prófið.
Opna prófið - Loka prófi
Dag- og tímasetningarnar „Opna próf“ og „Loka prófi“ er sá tímarammi sem prófið er aðgengilegt nemendum. Ef tímamörk eru ekki notuð er þetta sá tími sem nemandi fær í próftökuna.
Með því að nota einnig tímamörk er hægt að þrengja tímarammann.
Tímamörk
Tímamörk segja til um hve langan tíma nemandi fær í próftökuna sjálfa þ.e. frá því hann byrjar próftöku þar til hann þarf að senda prófúrlausn sína inn. Virkjun tímamarka gefur nemanda prófklukku sem telur niður próftímann á meðan á prófi stendur. Ef nemandi hefur ekki þegar sent inn prófúrlausn sína lokast það um leið og tímamörk eru uppurin. Tímamörk prófs þurfa að vera eitthvað styttri en tíminn á milli opna próf og loka prófi.
Nokkrir punktar til skýringar:
- Mælt er með að tíminn á milli opna próf og loka prófi sé rýmri en tímamörkin til að gera ráð fyrir óvæntum uppákomum t.d. nemanda sem kemur of seint eða tæknilegum örðugleikum.
- Ef tæknilegir örðugleikar koma upp í prófi er hægt að fara í uppsetningu prófs og framlengja tímann. Próftími uppfærist þá hjá nemendum þó svo að þeir séu í miðri próftöku. Ef einhverjir nemendur/hópar eru með tímafrávik í prófinu (t.d. lengri próftíma) þarf að muna eftir að framlengja sérstaklega tímann hjá þeim.
- Í prófum með yfirsetu er oft sleppt að stilla tímamörk þar sem yfirsetufólk sér um að vísa nemendum frá að próftíma loknum. Í þeim tilfellum er oft tíminn á milli opna próf og loka prófi, hafður rúmur þannig að hann geri ráð fyrir þeim sem þurfa lengri próftíma eða óvæntum uppákomum s.s. seinum nemanda eða tæknilegum örðugleikum.
- Í niðurstöðum prófs er m.a. að finna nákvæmar tímasetningar s.s. hvenær hver og einn nemandi byrjaði próftöku, hversu löngum tíma hver eyddi í prófið o.fl.
- Sé einungis dag- og tímasetningin opna prófið virkjuð geta nemendur tekið prófið um leið og tímasetningin leyfir, eða tekið prófið einhvern tíma síðar, þar sem því er ekki lokað.
- Sé einungis loka prófi dags/tími virkjuð geta nemendur tekið prófið um leið og fyrsta spurningin er komin í það eða tekið það einhvern tíma áður en kemur að lokadagsetningu og tíma.
Dæmi 1: Próf er haft opið til próftöku í einn sólarhring (opna próf /loka prófi) en tímamörkin sett í eina klukkustund. Nemandi getur þá tekið prófið hvenær sem er á þeim sólarhring sem prófið er aðgengilegt og fær eina klukkustund frá því hann byrjar próftöku þar til hann þarf að senda prófið inn. Nemandinn þarf að hefja próftöku í síðasta lagi einni klukkustund áður en loka dags/tími er settur ef hann á að fá fulla klukkustund til að taka prófið.
Dæmi 2: Dag- og tímasetningar fyrir opna próf / loka prófi eru ekki stilltar en í stað þeirra er sett aðgangsstýring á prófið sem takmarkar aðgang nemanda að próftöku út frá því hvort hann hafi lokið öðru prófi með 7 eða meira í einkunn.
Þegar tími rennur út
Þessa stillingu er í flestum tilfellum best að hafa eins og myndin sýnir þ.e. „Opnum tilraunum er skilað sjálfvirkt“. Þetta þýðir að ef próftíminn rennur út hjá nemanda áður en hann nær að senda inn prófúrlausn sína þá sendir Moodle hana inn sjálfvirkt. Stillingin er yfirleitt sjálfvalin í Moodle.
Vikmörk vegna skila
Stillingin á eingöngu við ef stillingunni fyrir ofan er breytt.
Í flestum tilfellum þarf eingöngu að stilla hér hve oft nemandi má taka próf Fjöldi heimilaðra próftilrauna.
Einkunnaflokkur
Einkunnaflokkur vísar til einkunnaflokks í einkunnabók áfangans. Ef ekki á að nota flokka í einkunnabók þarf ekkert að gera hér. Ef flokkur hefur verið settur upp í einkunnabókinni er hægt að velja hann. Einnig er hægt að setja prófið flokk í einkunnabók síðar.
Flokkar í einkunnabók henta ef kennari vill láta Moodle reikna heildareinkunn fyrir sérstök próf eða verkefni t.d. heildareinkunn fyrir vikuleg kaflapróf. Þau eru þá sett í sér flokk í einkunnabókinni.
Einkunn til að ná
Einkunnin segir til um lágmarkseinkunn til að ná prófinu og er t.d. notuð í tengslum við skráningu vinnuskila. Einkunnir undir lágmarkseinkunn eru yfirleitt sýndar rauðar í einkunnabókinni.
Fjöldi heimilaðra próftilrauna
Stillingin segir til um hversu oft nemandi má taka prófið. Sjálfvalda stillingin er Ótakmarkað sem merkir að nemandi má taka prófið eins oft og hann lystir. Ef nemandi á aðeins að fá að taka prófið einu sinni þarf að velja hér 1.
Einkunnagjöf
Ef nemandi má taka próf oftar en einu sinni þarf að velja hvaða einkunn á að gilda (fara í einkunnabók); einkunn fyrir fyrsta skiptið sem nemandinn tekur prófið, síðasta skiptið, sú próftilraun þar sem hann fær hæstu einkunnina eða hvort Moodle á að reikna meðaleinkunn úr öllum próftilraunum nemandans.
Ný síða
Hér er valið hversu margar spurningar eiga að vera á hverri síðu prófsins. Einnig er hægt að breyta uppsetningu og röð spurninga þegar þær eru settar í prófið og setja þá t.d. ákveðnar spurningar saman á síðu.
Sjálfvalda stillingin Sérhverja spurningu merkir ein spurning á hverja síðu prófs.
Navigation method
Stillingin segir til um hvort nemandi má fara fram og til baka í prófinu á meðan hann tekur það, s.s. að skoða aftur spurningar sem hann hefur lokið við og breyta svörum. Sjálfvalið er að nemanda sé frjálst að flakka fram og til baka í prófinu. Ef valið er „í röð“ þarf nemandi að svara spurningum í þeirri röð sem þær birtast og getur ekki farið til baka í prófinu eða breytt svörum.
Oftast gildir að sleppa þessum stillingum en þær bjóða þó upp á áhugaverða kosti í virkni prófs.
Handahófsraða innan spurninga
Sjálfvalda stillingin „Já“ hefur þau áhrif að í krossaspurningum er svarliðum raðað handahófskennt í hverri próftöku, þannig að svar a verður svar b hjá næsta nemanda o.s.frv. Ef leyfilegt er að taka próf oft birtast svarliðir í mismunandi röð í hverri próftöku. Sama gildir í annars konar spurningum sem samanstanda af hlutum líkt og krossaspurningar. Hægt er að breyta þessari stillingu innan spurningar t.d. ef nauðsynlegt reynist að svarliðir í ákveðinni krossaspurningu birtist í þeirri röð sem kennari setur þá upp en ekki handahófskennt.
Hegðun spurninga
„Deferred feedback“ (sjálfvalda stillingin) er sú stilling sem gildir fyrir hefðbundin próf. Hún merkir að nemandi fær enga endurgjöf fyrr en hann hefur lokið við og sent inn prófúrlausn sína. Sú endurgjöf sem hann fær þá byggist á því sem kennari velur undir „Valkostir við yfirlit“ t.d. hvort nemandi fær að skoða prófúrlausn sína eftir að hann lýkur prófinu, rétt og röng svör, fær að sjá einkunn eða annað.
Hér eru aðrir valkostir í boði svo sem „Interactive with multible tries“. Þar fær nemandi að vita um leið og hann svarar spurningu hvort svar er rétt eða rangt og fær annað tækifæri (í sömu próftökunni) til að svara spurningunni. Því oftar sem spurningu er svarað rangt því færri stig fær nemandi fyrir svarið.
„Allow redo within an attempt“
Ef stillingin er virkjuð, geta nemendur smellt á „Redo“ hnapp neðan við spurningu og fá með því aðra útgáfu af spurningunni. Stillingin á einungis við ef valið er við hegðun spurninga einhver sá kostur, þar sem nemandi fær endurgjöf á meðan á prófi stendur eins og t.d. „Interactive with multible tries“.
Tilraun byggir á næstu á undan
Ef leyft er að taka prófið oftar en einu sinni (leyfileg skipti undir liðnum einkunn) er hægt að velja hvort að í næstu próftilraun opnist spurningar með fyrri svörum nemanda. Þá getur nemandi valið að breyta aðeins svörum í tilteknum spurningum en láta að öðru leyti fyrri svör sín gilda.
Sjálfvalda stillingin er nei sem þýðir að í næstu próftilraun fær nemandi prófið án fyrri svara.
Hér stýrir kennari, með því að merkja við, hvort nemandi má skoða prófúrlausn sína eftir að próftöku lýkur, hvenær eða hvort prófúrlausnin verður aðgengileg og hvað birtist í henni. Merkt er við viðeigandi atriði í dálkunum (sjá mynd) út frá því hvað nemandi má sjá í úrlausninni. Atriði í fyrsta dálkinum eru óvirk og eiga ekki við nema endurgjöf á meðan á próftöku stendur sé virkjuð (stillingin hegðun spurninga).
Algengast er að kennari hafi einungis merkt við atriði undir dálkinum eftir að prófi hefur verið lokað. Það sem merkt er við í þeim dálki sér nemandi eftir að aðrir nemendur hafa lokið við prófið („Loka prófi“ dags-/tími er liðið).
Á meðan próftöku stendur
Stillingar í þessum dálki eiga eingöngu við þær prófgerðir sem leyfa endurgjöf á meðan á próftöku stendur t.d. „interactive with multiple tries“ (sem valið er við hegðun spurninga).
Strax að próftöku lokinni
Prófúrlausnin opnast um leið og nemandi hefur lokið prófi og sent það inn. Í prófúrlausninni sér nemandi þau atriði sem merkt er við. Aðrir nemendur geta þá ennþá verið að taka prófið.
Síðar, á meðan prófið er enn opið
Um það bil tveimur mínútum eftir að nemandi lýkur prófinu og sendir það inn birtist hlekkurinn yfirlit þar sem nemandinn getur skoðað prófúrlausn sína. Á meðan prófið er opið vísar til þess að Loka prófi dags-/tími er ekki liðinn og því geta aðrir nemendur enn verið að taka prófið.
Eftir að prófi hefur verið lokað
Nemandi sér það sem merkt er við eftir að próf lokast þ.e. dag- og tímasetningin við „Loka prófi“ er liðin (ekki er lengur hægt að taka prófið, og allir sem tóku það hafa skilað inn úrlausn sinni).
Athugið að nauðsynlegt er að virkja dag- og tímasetningar við loka prófi til að þessir valkostir virkist.
Hvað merkja einstök atriði?
Prófúrlausnin - Nemandinn getur skoðað eigin prófúrlausn með prófspurningunum.
Hvort svar er rétt - Nemandinn sér í prófúrlausninni hvort hann svaraði spurningu rétt eða rangt.
Stig - Nemandi sér stig fyrir hverja spurningu ásamt einkunn fyrir prófið í heild (nema ef kennari á eftir að gefa einkunn fyrir t.d. ritgerðarspurningu).
Sértæk endurgjöf - Nemandi sér í prófúrlausninni endurgjöf fyrir einstaka liði spurninga t.d. ef nemandi valdi rangt svar í krossaspurningu gæti komið fram hvað nemandinn þarf að kynna sér betur eða hvers vegna svarliðurinn er rangur.
Almenn endurgjöf er endurgjöf fyrir spurningu og gæti t.d. innihaldið vísanir í efni sem spurning byggir á eða annað.
Rétt svar - Nemandi sér í prófúrlausninni rétta svarið við spurningunum.
Heildarendurgjöf fyrir prófið sjálft. Ekki þarf að virkja prófúrlausn til að nemandi sjái þessa endurgjöf. Heildarendurgjöf er skráð örlítið neðar í þessu sama formi.
Ef ekki er merkt við prófúrlausnina er einungis mögulegt að merkja við stig/einkunn og heildarendurgjöf, þar sem aðrir liðir eru birtir í prófúrlausninni.
Oftast er óþarfi að eiga við stillingar í viðmóti en hér fyrir neðan eru útskýringar fyrir einstaka liði.
Birta mynd notanda
Ef valið er að birta mynd sést mynd nemanda og nafn hans á skjánum í próftökunni. Athugið að Moodle leyfir nemendum að setja inn eigin myndir nema lokað sé fyrir möguleikann og margir setja myndir af gæludýrum eða öðru.
Fjöldi aukastafa í einkunn
Stjórnar hve margir aukastafir sjást fyrir aftan kommu í einkunn nemanda. Stillingin hefur ekki áhrif á með hve mörgum aukastöfum Moodle reiknar einkunnina.
Fjöldi aukastafa í einkunn spurningar
Það sama og að ofan nema í tilviki einstakra spurninga.
Birta blokkir á meðan próf er tekið
Ef valið er já hefur nemandi aðgang að blokkum og efni þeirra á meðan á próftöku stendur.
Aðgangsstýra með lykilorði
Hér er hægt að setja lykilorð á próf, þá þurfa nemendur að gefa upp lykilorðið til að fá aðgang að prófinu. Hafa ber í huga að margir nemendur glíma við stress í prófum og þykir nóg að að muna hvernig þeir skrá sig inn í Moodle.
Krefjast ip tölu netkerfis
Hér er hægt er að takmarka aðgang að prófi við ákveðnar tölvur með því að setja ip-tölur þeirra inn í viðkomandi reit. Þetta gagnast t.d. þegar taka á prófið í ákveðinni tölvustofu/tölvustofum. Nemandi getur þá ekki opnað prófið annars staðar s.s. í annarri tölvustofu eða heima hjá sér. Hægt er að setja inn raðir ip-talna með kommu á milli t.d.: 155.210.270.129-169,155.220.150.166-186
Skilyrtur biðtími á milli fyrsta og annars skiptis
Skilyrtur biðtími á milli síðari skipta
Ef stillingin er virkjuð þarf nemandi að bíða í skráðan tíma þar til hann getur tekið prófið aftur í annað sinn, þriðja sinn eða síðari skipti.
Öryggi vefskoðara
Ef „Full screen pop-up with some JavaScript security“ er valið, fyllir vafraglugginn út í skjáinn. Nauðsynlegt er að JavaScript sé virkjað í vafra til að próf opnist. Hægt er að ferðast á milli forrita og vafraglugga. Ekki er um eiginlegt próföryggi að ræða.
Mögulegt er að setja upp Safe Exam Browser, sérstakan prófvafra, sem viðbót í Moodle en hann hefur ekki verið settur upp í Moodle grunnskóla.
Sýnilegt
Þegar valið er „Fela“ sjá nemendur ekki tengilinn á prófið á áfangasíðunni. Stillingin er líka aðgengileg á áfangasíðunni þegar hún er í ritham.
Auðkennitala
Auðkennitala er eingöngu notuð ef þörf er á sérhæfðum einkunnaútreikningum sem ekki eru í boði í einkunnabókinni. Þá er vísað í auðkennitöluna í formúlum. Í flestum tilfellum er ekki þörf á sérhæfðum einkunnaútreikningum.
Hópahamur og klasi
Próf gerir ráð fyrir því að nemendur vinni sjálfstætt og skili prófi hver og einn. Oftast eru hópar og klasar ekki notaðir í prófum en henta þó í ákveðnum tilfellum:
- Þegar kennarar skipta með sér endurgjöf t.d. fyrir ritgerðarspurningar í prófi. Kennari getur þá valið sinn hóp þegar kemur að endurgjöfinni.
Dæmi: Nemendum er skipt í hópa, jafnmarga og kennarar sem fara yfir (hóparnir gætu t.d. borið nöfn kennaranna), hópar eru settir í klasa og klasinn valinn undir almennar stillingar.
Með aðgangsstýringu er hægt að skilyrða aðgang að prófi t.d. miðað við lok á öðru viðfangi/viðföngum. Hægt er að setja fleiri en eitt skilyrði s.s. að nemandi tilheyri ákveðnum hópi, hafi lokið öðru verkefni með undir 5 í einkunn o.fl. Smellt er á „Add restriction“ og valið úr hvers konar aðgangsstýringu á að bæta við og stillingar valdar.
Ef skráning vinnuskila er virkjuð/notuð í áfanga þarf að skilgreina hér með hvaða hætti viðfangi (prófinu) telst lokið;
- hvort nemandi á sjálfur að merkja við að hafa lokið prófi á áfangasíðunni til að því teljist lokið
- hvort nemandi þarf að hafa hlotið einkunn fyrir prófið til að því teljist lokið
- hvort nemandi þarf að ná lágmarkseinkunn eða að hann hafi lokið við allar heimilaðar próftilraunir (þ.e. ef taka má prófið oftar en einu sinni).
Athugið að ef krafist er lágmarkseinkunnar þarf að skrá hver lágmarkseinkunnin er ofar í forminu undir einkunn.
Ef tilgreind eru fleiri en eitt skilyrði telst prófinu fyrst lokið þegar öll skilyrði hafa verið uppfyllt.
Kennari getur merkt próf og önnur viðfangsefni áfangans með tögum. Með því að setja upp blokkina tög á áfangasíðuna sjá nemendur tögin, geta smellt á einstök tög og séð þau atriði sem merkt hafa verið með viðkomandi tagi.
Í uppsetningu prófsins er tagið skráð í reitinn og smellt á enter hnappinn á lyklaborðinu. Tagið birtist þá fyrir ofan reitinn.
Að tengja tög við aðföng og viðfangsefni er frekar nýtt í Moodle (kom í útg. 3.1). Sjá nánar um tög á moodl.org:
Ef hæfniviðmið hafa verið sett upp í Moodle (af kerfisstjóra) getur kennari tengt próf við ákveðin hæfniviðmið.