Áríðandi er að gefa prófspurningum lýsandi heiti og flokka spurningarnar strax vel frá upphafi. Þannig má losna við ómælda vinnu síðar við leit að réttu spurningunum þegar próf er búið til. Þeir sem nota próf í Moodle þekkja að fjöldi spurninga vex oft hratt, því er þjóðráð að byrja á að hugsa um hvernig best sé að skipuleggja flokkun spurninganna. Flokkuninn er hægt að breyta síðar ef þörf krefur.
Gefið spurningu lýsandi heiti svo hún sé auðþekkjanleg og auðfinnanleg. Einungis kennari sér heiti spurningar. Ef spurning er stutt má jafnvel nota spurninguna sjálfa (eða svarið) sem heiti. Til að láta spurningar raðast má nota annað hvort tölustafi í upphafi heitis eða bókstafi t.d. 001, 002 eða aaa, aab o.s.frv. Setjið spurningu í flokk um leið og hún er búin til.
Til að birta texta hverrar spurningar í spurningalistanum er merkt við „Birta texta spurninga í spurningalista“ efst á síðunni.
Búið til flokka og undirflokka í spurningabanka áfangans, gefið þeim viðeigandi heiti og skráið jafnvel lýsingu á þeim spurningum sem þeir eiga að innihalda. Flokkar þjóna sama hlutverki fyrir spurningar og möppur fyrir skjöl. Fljótlegra er að finna spurningar í próf ef spurningabanki áfanga er vel skipulagður.
Spurningaflokkur búinn til
Umsýsla áfanga > spurningabanki > flokkar
Smellið á flokka undir spurningabanka í umsýslu áfanga veftré.
Neðst á síðunni sem opnast er boðið upp á að búa til spurningaflokk. Velið yfirflokk við „parent category“ þ.e. undir hvaða flokki nýi flokkurinn á að eiga heima. Ef valið er „efst“ fer nýi flokkurinn beint undir áfangann.
Gefið spurningaflokknum lýsandi heiti. Í ritilinn er hægt að skrá frekari lýsingu á þeirri tegund spurninga sem flokkurinn á að innihalda.
Smellið á nýr flokkur.
Í vídeóinu hér fyrir neðan er sýnt hvernig flokkur er stofnaður í spurningabankanum. Athugið að þó að annað útlit sé á Moodle í vídeóinu og það sé nokkura ára gamalt hafa flokkar spurningabanka ekki breyst í Moodle.