Moodle-vefur með sýnishornum

Í áfanganum Verkfærin í Moodle er hægt að prófa uppsett sýnishorn ýmissa verkfæra. Með því að innrita sig fer notandinn í hlutverk nemanda og getur tekið próf, skilað verkefni, skráð sig í hóp, tekið þátt í umræðu o.fl. Þeir sem ekki hafa notandanafn geta skráð sig inn með notandanafninu nemandi og lykilorðinu Moodle1.

Moodle er námsumsjónarkerfi (Learning management system LMS) sem kennarar grunnskóla á Íslandi hafa aðgang að. Nánari upplýsingar: moodle@reykjavik.is.

Orðið Moodle stendur fyrir Modular Object-Oriented Dynamic Learning Environment.

Moodle býður upp á fjölbreytt úrval verkfæra til að styðja við nám og kennslu m.a. verkfæri til að:

  • deila námsefni (skrár, möppur, síður, bækur, safn)
  • styðja við samkipti (umræður, spjall, blogg, wiki)
  • styðja við nám (skráning vinnuskila, dagatal, einkunnarammar, sértæk endurgjöf)
  • virkja hópvinnu (wiki, gagnagrunnur, umræður, safn)
  • styðja við námsmat (próf, verkefni, Turnitin, einkunnabók, einkunnarammar, einkunnaskalar, hæfniviðmið)
  • og margs konar verkfæri vegna umsýslu áfanga (hópar, dagatal, aðgangsstýringar, skýrslur, kannanir, blokkir, einkunnabók)

Grunnskóla-Moodle
Moodle fyrir grunnskóla er hýst hjá Reykjavíkurborg. Sjá moodle.reykjavik.is.

Upphaf Moodle og hugmyndafræði
Moodle er afrakstur doktorsverkefnis Martin Dougiamas sem er kennari og tölvunarfræðingur. Áður en hann hóf smíði Moodle á 10. áratugnum hafði hann notað námsumsjónarkerfið WebCT í kennslu. Við hönnun Moodle hafði Martin hugmyndir félagslegrar hugsmíðahyggju (social constructionism) að leiðarljósi.

Alþjóðlegt samfélag notenda
Moodle er notað um allan heim af skólum, fyrirtækjum og stofnunum og er eitt vinsælasta og öflugasta kerfi sinnar tegundar. Það hefur verið þýtt á um 120 tungumál. Moodle er t.a.m. notað í stórum fjarnámsháskólum eins og Open University í London.

Öflugt alþjóðlegt samfélag notenda tekur þátt í þróun kerfisins og notkunarmöguleikar þess aukast frá ári til árs. Breytingar og viðbætur eru gerðar að frumkvæði kennara sem benda á það sem þarf.

Ókeypis og opið
Kerfið sjálft er aðgengilegt öllum að kostnaðarlausu á netinu og er „open source“ (http://opensource.org/docs/osd) hugbúnaðarkerfi.

Meira um Moodle
Nánar má fræðast um Moodle á moodle.org og á Wikipedia.