- Vefur áfanga vitnar um áherslur kennara, markmið og hæfniviðmið áfangans. Vel skipulagður áfangavefur veitir nemanda yfirsýn yfir innihald áfanga og styður við vel skipulagt nám.
- Við skipulagningu áfangavefs þarf að taka mið af námsáætlun, skipulagi kennslu, eigin áherslum og kennslusýn.
- Skoðið vef áfangans frá sjónarhorni þess sem ekkert þekkir til, sjónarhorni nýs nemanda.
- Fáið annan kennara (eða nemanda) til að skoða vef áfangans og gefa gagnrýni.
- Ef vefur áfanga er tilbúinn í upphafi annar veitir það nemendum tækifæri til að skipuleggja eigin vinnu.
- Kynnið vef áfanga fyrir nemendum, útskýrið skipulag hans og hvernig hann muni verða notaður.
Eðlilegt er að miða uppbyggingu áfangavefs við skipulag kennslu og innihald áfanga. Nokkur dæmi um uppbyggingu eða heildarskipulag:
- Áfangasíðan er sett upp m.v. tímaröð þar sem hver vika (eða dagur) fær sinn reit og viðeigandi efni efni (lesefni, glærur, verkefni) er sett undir hverja viku. Dagsetningar hverrar viku þjóna sem fyrirsagnir.
- Áfangasíðunni er skipt upp út frá þeim efnisflokkum sem farið er yfir í áfanganum. Hver efnisflokkur fær þá sinn reit t.d. prósentureikningur, hornasumma þríhyrninga, ummál og flatarmál.
- Áfangasíðunni er skipt upp í reiti m.v. eðli námsþáttar s.s. lesefni í einum reit, verkefni í öðrum, próf í þeim þriðja o.s.frv. Hægt er að láta dagsetningar fylgja með heiti verkefna/prófa til að tímaröð sé skýr.
- Áfangasíðunni er skipt upp m.v. mikilvægi efnis. Það mikilvægasta og það sem nemendur þurfa mest að nota er haft sýnilegast/efst.
Gætið samræmis í uppsetningu vikna/námshluta áfangavefsins t.d. með því að setja atriði (efni, verkefni og undirfyrirsagnir) upp í sömu röð í hverri viku og með því að hafa lýsingu verkefna uppsetta með sama hætti.
Notið inndrátt skipulega þar sem hann á við (örin).
- Lágmarkið skrun með því að setja skrár í möppur og skipuleggið í undirmöppur ef þörf krefur. Forðist að hafa fleiri en 2-3 skrár í viku án þess að setja þær í möppu. Oft er sagt að miða skuli við að forsíða áfanga sjáist öll í einni skjáfyllu.
- Notið áfangasniðið fellireiti (collapsed topics). Til að virkja það er farið í tannhjólið í efra hægra horni á forsíðu námskeiðs og í uppsetningu. Þar undir framsetningu er valið fellireitir (collapsed topics). Með þessu áfangasniði getur notandinn fellt saman allar vikur og opnað eina og eina í einu. Fellireiti er einnig hægt að stilla á vikuuppsetningu. Of langir/síðir áfangavefir vinna á móti góðu vinnulagi, eru tímafrekir fyrir notandann og erfitt er að fá yfirsýn yfir efni þeirra. Oft er talað um skroll dauðans (scroll of death) í því sambandi.
Önnur lausn er að stilla áfanga á að sýna einn hluta/viku í einu (í uppsetningu), þannig er hægt að fletta á milli hluta áfangans í stað þess að skruna. - Hafið haus áfangans (efsti hluti miðjudálks) ekki of langan. Nemandinn þarf að skruna í gegnum haus vefsins í hvert skipti sem hann kemur inn á vefinn. Í stað þess að setja atriði í haus má t.d. setja tengla í mikilvæg gögn, texta eða annað í blokk efst til hægri (html blokk) eða á síðu.
- Forðist að birta efni (texta) beint á forsíðu áfanga nema það sé nauðsynlegt fyrir samhengi eða skipulag, notið heldur síðu eða bók til að birta efni. Setja má stutta skýringu við tengil á efni nemendum til glöggvunar ef þörf krefur (+nýtt viðfangsefni eða aðföng > snepill).
Hafið fyrirsagnir stuttar, skýrar og lýsandi fyrir innihald. Of langar fyrirsagnir geta skipt sér í línur í snjalltækjum.
Notið undirfyrirsagnir og stuttar skýringar þar sem þær eru nauðsynlegar. Notið snepil til að setja inn auka fyrirsagnir eða stuttar skýringar. Athugið þó að halda texta á forsíðu áfanga í lágmarki. (+nýtt viðfangsefni eða aðföng > snepill).
Langar runur, af tenglum í viðfangsefni og/eða efni eru erfiðar aflestrar. Brjótið upp með bili eða láréttri línu. Verið ófeiminn við að nota auð bil og/eða línur til að afmarka, á milli viðfangsefna. Þó að línur og bil geri áfangasíðu lengri þá auka þau læsileika síðunnar og auðvelda notanda að skanna efni hennar. Línubil á milli atriða og/eða lárétt lína er sett inn með snepli (+Nýtt viðfangsefni eða aðföng > Snepill). Hægt er að setja hvítan punkt í ritilinn til að búa til línubil og lárétta línu er hægt að fá með því að setja <hr> í html umhverfi ritilsins.
Notið inndrátt þar sem við á („breyta“ aftan við viðfangsefni og „færa til hægri“).
Eyðið blokkum sem ekki stendur til að nota. Nemendur eyða tíma í að skoða blokkirnar auk þess sem þær geta skapað misskilning. Alltaf er hægt að bæta þessum blokkum aftur inn á vefinn síðar ef þörf krefur. Kynnið ykkur blokkir og notið þær sem henta ykkar áfanga. Munið eftir hinni notadrjúgu html blokk.
Notið verkfærin síðu, bók eða html blokk fyrir tenglasöfn, námsáætlun eða annað efni sem kennari skrifar sjálfur, í stað þess að hlaða því upp sem skrá. Með því að skrifa beint inn í Moodle er fljótlegra að uppfæra efnið auk þess sem það er notendavænna m.t.t. snjalltækja.
Setjið upp blokk (html blokk) á áberandi stað með tenglum í atriði sem eru mikið notuð í námskeiðinu.
Myndir á áfangavef geta lífgað upp á og virkað sem leiðarvísar sem auðvelda nemanda að rata um forsíðu áfanga, sérstaklega í áföngum sem eru efnismiklir. Mynd efst á síðunni auðkennir áfangann og skapar stemmningu.
Myndir geta hins vegar einnig dregið athygli nemandans frá meginatriðum. Í því sambandi er talað um „cognitive overload“. Hugur notandans þarf að eyða tíma og orku í að meðtaka myndir, því meira sem þær eru mismunandi t.d. að stærð og formati. Stór mynd efst í áfanga er e.t.v. skemmtileg í byrjun en leiðingjörn þegar notandinn þarf að skrolla fram hjá henni í hvert skipti sem hann kemur inn á vefinn. Því er rétt að vera meðvitaður um tilgang mynda og samræmi í uppsetningu þeirra, t.d. með því að hafa myndir á forsíðu í sama formati og jafnstjórar.
Athugið einnig hvort myndirnar á vefnum henta snjalltækjum. Eru þær of stórar? Minnka þær þegar þær eru skoðaðar í snjalltækjum? Þarf notandinn að skrolla þversum og langsum til að skoða þær í síma?
Auðkennið námshluta sem verið er að fara yfir hverju sinni (ljósaperan/highlight) og dragið hann jafnvel efst á síðuna. Ef vikuuppsetning er notuð er núlíðandi vika ávallt auðkennd sjálfvirkt.