Ef gölluð prófspurning reynist vera í prófi sem nemendur hafa lokið við að taka er mælt með að gefa spurningunni 0 í vægi og láta Moodle endurreikna einkunnir. Einkunnir nemenda uppfærast þá miðað við að spurningin hafi ekki verið í prófinu. Athugið að fjarlægja ekki spurningar úr prófi sem nemandi/nemendur hafa tekið.
Gott er að byrja á að fara í niðurstöður prófsins og taka niður nokkrar einkunnir nemenda sem fengu rangt fyrir spurninguna eða svöruðu henni ekki. Einnig er hægt að taka skjámynd, til að hafa samanburð fyrir og eftir.
1. Skjámynd tekin af niðurstöðum.
- Smellið á prófið á áfangasíðunni.
- Smellið á tannhjól prófsins (hægra megin) og á yfirlit undir niðurstöðum.
- Skrollið niður að nöfnum og einkunnum nemenda og takið skjámynd af einkunnum hjá nemanda/nemendum sem fengu rangt eða svöruðu ekki gölluðu spurningunni. Notið t.d. „Snipping Tool“ eða PrtSc hnapp lyklaborðsins.
Í dæminu hér fyrir neðan er spurning 4 gölluð og flestir nemendur svöruðu henni rangt eða slepptu því að svara.
2. Stig spurningar sett í núll
- Smellið á heiti prófsins í brauðmolaslóðinni, til að komast aftur í valmöguleikana (tannhjólið).
- Smellið á tannhjólið og farið í Breyta prófi. Síðan með prófspurningunum opnast.
- Finnið spurninguna sem um ræðir, smellið á pennamerkið aftast í línunni, skráið 0 í reit fyrir stig og sláið á enter hnapp lyklaborðsins til að vista.
3. Einkunnir skoðaðar
Oftast endurreiknar Moodle próf sjálfkrafa um leið og stigum spurningar er breytt. Í fjölmennum áföngum eða ef próf er mjög stórt getur það tekið einhverja stund. Til að ganga úr skugga um að próf hafi endurreiknast þarf að fara aftur í niðurstöður prófsins.
- Smellið á heiti prófsins í brauðmolaslóðinni og á tannhjólið. Veljið yfirlit undir niðurstöðum.
- Skoðið hvort einkunnir nemenda hafa uppfærst. Ef um stórt próf er að ræða eða mjög fjölmennan áfanga getur aðgerðin tekið dálitla stund (sjaldan meira en 1-2 mínútur). Ef Moodle hefur ekki uppreiknað einkunnir nemenda, smellið þá á Regrade all hnappinn fyrir ofan nöfn nemenda og leyfið Moodle að endurreikna einkunnir án þess að gera aðrar aðgerðir á meðan. Moodle sýnir prósentustiku, þegar hún sýnir 100% er óhætt að smella á áfram hnappinn.