Moodle látið velja spurningar í próf

Leiðin: Prófið > tannhjólið (hægra megin) - Breyta prófi > Bæta við spurningu - Bæta við spurningu af handahófi

Mögulegt er að láta Moodle velja spurningar í próf af handahófi. Nemendur fá þá mismunandi spurningar og ef nemandi má taka prófið oftar en einu sinni inniheldur það ólíkar spurningar í hvert skipti. Hægt er að láta eina spurningu eða fleiri skiptast út, t.d. hafa tilteknar spurningar fastar í prófinu en láta Moodle velja aðrar. Áríðandi er að spurningar sem valið er úr hverju sinni séu sambærilegar. Æfingapróf sem nemandi má taka oftar en einu sinni eru oft látin innihalda spurningar af handahófi.

 1. Smellið á prófið á áfangasíðunni.
 2. Smellið á tannhjólið tannhjól (ofarlega til hægri) og veljið Breyta prófi.
 3. Smellið á Bæta við spurningu hægra megin og veljið Bæta við spurningu af handahófi. Form opnast.
  bæta við spurningu

  Þegar smellt er á bæta við spurningu opnast þrír valkostir.

  spurning af handahófi

  Myndin sýnir form sem opnast þegar spurningu/spurningum af handahófi er bætt í próf.

 4. Veljið úr hvaða flokki spurningabankans spurningin eða spurningarnar eiga að koma. Ef flokkurinn hefur ekki verið stofnaður í spurningabankanum er byrjað á að velja fjölda spurninga og síðan er hægt að stofna flokkinn í New category flipanum. Setja má spurningarnar í nýja flokkinn eftir á.
 5. Merkið við ef Moodle á einnig að velja spurningar úr undirflokkum þessa tiltekna flokks (ef undirflokkar eru til staðar).
 6. Veljið fjölda spurninga sem Moodle á að setja í prófið. Athugið að ef t.d. á að velja 15 spurningar þarf að gera aðgerðina tvisvar, velja annars vegar 10 spurningar og hins vegar 5 spurningar. Moodle sér um að velja ekki tvisvar sinnum sömu spurninguna í prófið.
  handahófsvaldar spurningar í prófi

  Myndin sýnir þrjár spurningar sem hafa verið valdar af handahófi í próf. Í stað þess að sýna nafn spurningar kemur fram orðið Handahóf. Innan sviga sést flokkurinn sem spurningarnar koma úr.

Dæmi

Moodle er látið velja í próf:

 • tvær ritgerðaspurningar af handahófi úr 5 spurninga flokki
 • tíu krossaspurningar úr 30 spurninga flokki
 • þrjár eyðufyllingaspurningar úr 10 spurninga flokki.

Með því að forskoða prófið nokkrum sinnum getur kennari sannreynt að það birtist með ólíkum spurningum í hvert skipti.

Athugið

Til að próf með spurningum af handahófi sé sanngjarnt er áríðandi að spurningar innan flokks sem valið er úr séu sambærilegar.